Um vináttuna
3,690 ISK
Höfundur Marcus Tullius Cicero
Þessi vara er ekki fáanleg eins og er
Hvað er heimskulegra en að þeir sem hafa auð, völd og tækifæri eignist allt sem falt er fyrir peninga í stað þess að afla sér vina, sem eru þó, ef svo má að orði komast, fegurstu og bestu kjörgripir lífsins?
Marcus Tullius Cicero var uppi á fyrstu öld fyrir Krist, þegar stóð yfir gullöld rómverskra bókmennta og umbrotaskeið í stjórnmálum rómverska ríkisins. Cicero lét mikið að sér kveða á báðum sviðum, enda er nafn hans enn meðal þeirra frægustu úr fornöld. Samræðan Um vináttuna varð til seint á ævi stjórnmálaskörungsins, þegar hann hafði að mestu glatað áhrifum sínum og þess var ekki langt að bíða að hann yrði myrtur af fjandmönnum sínum, en þar ræðir hann einkenni sannrar vináttu og gildi hennar í daglegu lífi. Afstaða Ciceros til vináttunnar byggir á kenningum stóumanna, sem álitu að vinátta væri til merkis um dyggð og fælist í samlífi dyggðugra, nauðsynleg til að maður fengi höndlaða hamingjuna. Markmið hans var hins vegar að heimfæra hina stóísku siðfræði upp á þann veruleika sem Rómverjar þekktu og sýna þeim fram á nytsemi hennar. Því dregur Cicero úr þeim ströngu kröfum sem stóumenn settu sem skilyrði fyrir því að nokkur maður teldist dyggðugur eða hamingjusamur. Samkvæmt þeim var aðeins þeim sem bjó yfir óhagganlegri þekkingu, vitringnum, gefið að öðlast hamingju en stærstur hluti fólks var dæmdur til böls og lasta – og gat aldrei átt sanna vini.
Rit Ciceros er samræða í aristótelískum stíl, ólík samræðum Platóns í því að meginhluti hennar er eintal einnar persónu um viðfangsefnið. Lykilatriðið er ekki rökræðan sjálf heldur það hvernig sýna má með stóískum rökum fram á gildi vináttunnar meðal manna í veraldlegu samfélagi. Cicero leiðir rök að því að réttnefnd vinátta einkennist af því að maður virði vininn hans vegna en ekki sjálfs sín og reynir að hrekja kenningar sem halda því fram að gildi vináttu felist í nytseminni eða ánægjunni sem af henni hlýst.
Cicero var meistari latneskrar tungu og nánast holdgervingur rómverskrar menningar. Verk hans voru í hávegum höfð, bæði í fornöld og á nýöld, og fyrir utan gildi þeirra í sjálfum sér eru þau merk heimild um samtíma höfundar sem og um helleníska heimspeki. Í inngangi að þessu verki fjallar Svavar Hrafn Svavarsson meðal annars um vináttuhugtök Grikkja og Rómverja, um feril Ciceros og meðferð hans á stóískri siðfræði.
Eftir sama höfund hefur áður samræðan Um ellina komið út sem Lærdómsrit.