Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk

Af hverju hefur enginn sagt mér þetta fyrr?

5,690 ISK

Höfundur Dr Julie Smith

Dr. Julie Smith, samfélagsmiðlastjarna og reyndur klínískur sálfræðingur, deilir hér hugmyndum, þekkingu og aðferðum sem hún hefur séð breyta lífi skjólstæðinga sinna, þannig að lesendur geti einnig notið góðs af. Sumt fólk vill ekki fara í viðtal hjá fagaðila, þarf ekki á því að halda eða hefur ekki efni á því. Það þýðir þó ekki að aðferðir sem sálfræðingar kenna í meðferð geti ekki nýst okkur öllum til að gera daglega lífið bjartara og bærilegra. Í þessari hagnýtu og hughreystandi bók segir Dr. Julie frá því hvernig við getum nýtt aðferðir sálfræðinnar okkur til gagns.

Þessi bók er verkfærakassi til geðheilsuræktar, fullur af mismunandi verkfærum sem nota má til að takast á við ólíkar áskoranir. Hvort sem þú glímir við streitu, kvíða, depurð, lágt sjálfsmat, sjálfsniðurrif eða sorg, muntu finna aðferðir sem hjálpa þér að skilja líðan þína betur, sjá hlutina frá nýju sjónarhorni og átta þig á hvernig þú getur tekist á við tilfinningarnar.

Stuttir kaflar auðvelda þér að finna ráð sem geta nýst þegar þú þarft á þeim að halda ásamt einföldum skýringarmyndum, sem sýna hvers vegna hugurinn starfar á þann hátt sem hann gerir, og hagnýtum verkfærum, svo sem hugaræfingum, öndunaraðferðum og dagbókarkveikjum.

Í Af hverju hefur enginn sagt mér þetta fyrr? finnurðu allt sem þú þarft á að halda til að verða yfirvegaðri, sterkari og þrautseigari í lífsins ólgusjó.


Dr. Julie Smith hefur yfir tíu ára starfsreynslu sem klínískur sálfræðingur og var fyrsti fagaðilinn til að nýta sér TikTok við að kynna aðferðir úr meðferðarstarfi. Hún opnaði TikTok rás eftir að hafa rekið eigin sálfræðistofu, með það að markmiði að búa til hágæðafræðsluefni sem væri aðgengilegt öllum. Á meðan á COVID-19 faraldrinum stóð óx fylgjendahópur hennar stjarnfræðilega, upp í þrjár milljónir manna, enda tengdi fólk við stuttu myndskeiðin sem hún deildi og nýtti sér ráð hennar sér til gagns. Áhorf á þessi myndskeið mælast nú í hálfum milljarði á þeim miðlum þar sem hún deilir þeim. TikTok hefur tilnefnt hana sem einn af 100 vinsælustu höfundum sínum.

Julie hefur komið fram í tveimur myndum á BBC og á CBBC, Good Morning Britain, BBC Breakfast og í CNN International. Hún er sálfræðingur í útvarpsþáttum BBC Radio 1 Life Hacks og hefur einnig birst í Womenʼs Health, Buzzfeed, Telegraph, The Times, Mail on Sunday, Glamour, CNN og víðar. Julie býr í Hampshire á Englandi með eiginmanni og þremur börnum.