Frumspekin I
3,700 ISK
Höfundur Aristóteles
Eftir heimspekinginn Aristóteles er varðveittur gríðarlegur fjöldi rita sem spanna flestar þær fræðigreinar sem til voru um hans daga. Áhrif hans á skólaspeki miðalda eru vel kunn og hugmyndir hans og hugtök hafa mótað heimspekisöguna allar götur síðan. Þetta rit er fyrsta bók hans af fjórtán um „hina fyrstu heimspeki“ eða frumspeki, það er að segja um það sem er til.
Líkt og á ýmsum öðrum sviðum heimspekinnar er framlag Aristótelesar til frumspekinnar ómetanlegt. Hann tók viðfangsefnið skipulegum tökum eins og endranær og setti fyrstur manna fram heilsteypta greiningu á lykilhugtökum þess. Þar með lagði hann hornsteininn að þeirri fræðigrein sem átti eftir að vera miðlæg í vestrænni heimspeki lengst af sögu hennar. Þessi hluti verksins hefur form sögulegrar greinargerðar fyrir kenningum forvera Aristótelesar, frá hinum fyrstu heimspekingunum og fram til Platons, og er gríðarlega mikilvæg heimild um þennan hluta heimspekisögunnar. Hið sögulega yfirlit þjónar þeim tilgangi að styðja eigin kenningu Aristótelesar um hinar fjórar frumorsakir alls sem er, með því að hann sýnir fram á hvernig eldri heimspekingar hafi smám saman áttað sig á orsökunum; þeir fyrstu gerðu aðeins ráð fyrir efnisorsökum, en svo áttuðu menn sig á að fleira þyrfti að koma til, til að mynda uppspretta hreyfingar. Platoni telur Aristóteles það til tekna að hafa áttað sig á formlegri orsök, en sér þó ástæðu til þess að gagnrýna frummyndakenningu læriföðurins í löngu máli.
Orsakir einhvers eru samkvæmt kenningu Aristótelesar efni þess, form, uppspretta hreyfingar eða aflvaki og loks tilgangur þess. Þessar frumorsakir gefa endanlega útskýringu á hlutnum,öllum spurningum um hann verður svarað með tilvísun til þeirra, og þessum útskýringum má beita til að skilja það sem er til. Í inngangi sínum að Frumspekinni skýrir Svavar Hrafn Svavarsson hvernig Aristóteles hugsar kenningu sína og hvernig hann sá fyrir sér frumspeki sína yfirleitt, auk þess að gefa yfirlit yfir efni og uppbyggingu verksins.
Þýðing: Svavar Hrafn Svavarsson sem einnig ritar inngang.
Eftir Aristóteles hafa einnig verið gefin út sem Lærdómsrit Siðfræði Níkomakkosar og Um skáldskaparlistina