Hugrekki til að hafa áhrif
5,990 ISK 4,990 ISK
Höfundur Halla Tómasdóttir
Það býr leiðtogi innra með okkur öllum og eitt mikilvægasta verkefni lífsins er að gefa þessum leiðtoga rödd og áhrif. Sannur leiðtogi leggur sig fram um að hafa áhrif til góðs og nýtir hugrekki sitt til að leysa úr læðingi eigin krafta sem og annarra.
Í bókinni Hugrekki til að hafa áhrif deilir Halla reynslu úr lífi og starfi sem og sögum af fyrirtækjum og fólki sem hafa virkjað krafta sína til góðra verka og þannig náð bæði miklum árangri og fundið innri gleði. Bókinni er ætlað að veita lesandanum innblástur til að bæta sig og sitt samfélag og í henni má finna fjölda góðra ráða, hvetjandi sögur, hugleiðingar og gagnlegar spurningar sem efla leiðtogann innra með okkur.
„Ég hef þá einlægu trú að allar breytingar byrji með einni manneskju sem hefur hugrekki til að hafa áhrif og fær fleiri með sér í lið. Ég vona að þú finnir þinn stað, þinn málstað til að leiða breytingar til góðs og minni þig á að allar breytingar byrja með góðu fólki sem ákveður að starfa með öðru góðu fólki að því að gera heiminn eilítið betri í dag en í gær. Ef við veljum að taka þátt, gera gagn og láta gott af okkur leiða, þá eru í reynd okkar björtustu tímar fram undan.“
Halla Tómasdóttir var forstjóri B Team sem starfar á heimsvísu að því markmiði að leiða umbreytingu í viðskipta- og stjórnunarháttum í átt til betra samfélags. Þá hefur Halla unnið hjá stórfyrirtækjum á borð við Pepsi og M&M/Mars, tekið virkan þátt í uppbyggingu Háskólans í Reykjavík og leitt verkefnið Auður í krafti kvenna. Halla var annar stofnenda Auðar Capital, einn stofnenda Mauraþúfunnar sem hélt Þjóðfund árið 2009. Halla bauð sig fram til embættis forseta Íslands árin 2016 og 2024. Hún er núverandi forseti Íslands, jafnframt því er hún rekstrarhagfræðingur, frumkvöðull og alþjóðlegur fyrirlesari sem trúir að hugrekkið sé til alls fyrst.
Halla í viðtali í hlaðvarpinu Normið
Útgefandi: SALKA