Ríkið I og II, í öskju
6,490 ISK
Höfundur Platón
Tvö bindi í öskju
Ríki Platons er án efa frægasta heimspekirit allra tíma og jafnan talið höfuðrit hins mikla spekings. Meginefni samræðunnar er stjórnskipan og fjallar hún að stofni til um það hvernig skipan hins fullkomna ríkis myndi háttað en jafnframt hefur þetta viðamikla verk að geyma kenningar Platons um ýmis siðferðileg, þekkingarfræðileg og frumspekileg efni. Meðal viðfangsefna hans hér eru réttlætið, skáldskapur, mannssálin, þekking og veruleiki. Bókin mun vera elsta stjórnspekirit Vesturlanda og hefur jafnframt að geyma rök Platons fyrir frummyndakenningu sinni. Héðan eru komnar hellislíkingin, hugsjónin um fyrirmyndarríki reist á heimspekilegum forsendum og fleiri hugmyndir sem öðlast hafa svo að segja sjálfstætt líf.
Snemma í samræðunni greinir Platon að ólíka þætti mannssálarinnar, skynsemi, skap og löngun, og segir réttlæti felast í því að hver þeirra vinni sitt starf og aðeins það; til að mynda ber skynseminni að fara með stjórnina. Réttlæti í þessum skilningi er dyggð, sem óhjákvæmilega hefur í för með sér hamingju, og sá sem býr yfir slíkri dyggð mun vinna réttlát verk. Á sama hátt er réttlæti í ríkinu fólgið í því að hver sinni sínu hlutverki – því sem hann er hæfastur til að gera – og aðeins því. Á þessari réttlætishugmynd byggir stjórnskipan fyrirmyndarríkisins sem er æði frábrugðin hugsjónum flestra nútímamanna.
Platon taldi að lýðræði myndi seint gefast vel, því einstaklingum í slíku samfélagi muni lást að huga að hagsmunum heildarinnar og því sé heill þeirra betur borgið undir annars konar stjórnskipan. Aftur á móti var hann ekki miklu bjartsýnni hvað varðar skynsemi yfirstéttarmanna eða heimspekinganna sem hann vildi setja við stjórnvölinn, heldur skyldi einnig setja þeim strangar reglur. Það væri þó ekkert ok að eftirláta heimspekingum stjórn ríkisins því þeir byggju yfir sannri visku.
Ein þungamiðja verksins er greinargerðin fyrir frummyndakenningunni sem hér er sett í samhengi við stjórnspeki Platons. Heimspekingarnir eru þeir fangar hellisins sem hafa slitið sig lausa og stigið út úr honum og þannig öðlast þekkingu á þeim æðri veruleika sem við sjáum venjulega aðeins skuggamyndirnar af. Hin sanna þekking þeirra – sér í lagi á hinu góða sem er æðst allra frummyndanna – gerir þá hæfasta allra til að stjórna ríkinu heillavænlega.
Ríkið er gefið út í tveimur bindum, með ítarlegum inngangi þýðandans, Eyjólfs Kjalars Emilssonar, þar sem skýrðar eru nokkrar helstu hugmyndir Platons í verkinu. Önnur Lærdómsrit eftir Platon eru Menón, Samdrykkjan, Síðustu dagar Sókratesar og Gorgías en í því síðastnefnda koma fyrst fram ýmsar þær hugmyndir sem hann þróar áfram í Ríkinu.
Þýðing: Eyjólfur Kjalar Emilsson sem einnig ritar inngang og skýringar.