Tim Burton færir fröken Peregrine og sérkennilegu börn hennar á hvíta tjaldið
Í haust lifna persónurnar úr Heimili fröken Peregrine fyrir sérkennileg börn við á hvíta tjaldinu. Tim Burton leikstýrir kvikmyndinni en hann hefur leikstýrt myndum á borð við Nightmare Before Christmas, Edward Scissorhands, Sleepy Hollow, Beetlejuice, Charlie and the Chocolate Factory og svo mætti lengi telja. Það má í raun segja að leikstjórinn hafi lengi verið tengdur hinu sérkennilega og því vel við hæfi að leikstjórnin sé í hans færu höndum.
Bókin segir frá Jakob sem elst upp við undarlegar frásagnir afa síns af munaðarleysingjahæli á afskekktri eyju. Sögurnar og ljósmyndirnar sem afi hans sýnir honum af hinum börnunum eru vægast sagt ótrúlegar. Þegar Jakob kemst á unglingsaldur hættir hann að taka mark á þessum lygilegu sögum og það er ekki fyrr en eftir fjölskylduharmleik að hann fer að gruna að mögulega sé eitthvað hæft í sögum afa síns. Jakob ferðast til eyju við strönd Wales að leita að barnaheimilinu en þar fer líf hans að flækjast með hætti sem hann hefði aldrei getað órað fyrir.
Við hjá Sölku getum ekki beðið eftir að sjá þessa frábæru bók í aðlögun Tim Burton. Að sjálfsögðu er skylda að lesa bókina fyrst! Hana má finna hér.
Hér má sjá stiklu úr kvikmyndinni.