Fyrsta bókakvöld Sölku í haust
Það er komið að fyrsta bókakvöldi Sölku þetta haustið! Það má með sanni segja að kvöldið verði fróðlegt en gestir okkar að þessu sinni eru tveir gamalreyndir fjölmiðlamenn, Þórir Guðmundsson og Stefán Jón Hafstein.
Nýverið komu út bækurnar Í návígi og Heimurinn eins og hann er þar sem þeir líta um öxl og segja frá reynslu sinni á mjög lifandi og áhugaverðan hátt. Hólmfríður Anna Baldursdóttir, verkefnastýra hjá UNICEF kemur til með að stjórna umræðum þar sem Þórir og Stefán ræða efni bóka sinna í víðu samhengi og er víst að umræðurnar verða líflegar og skemmtilegar!
Bókakvöldið verður þriðjudaginn 13. september kl. 20 í bókabúð Sölku, Hverfisgötu 89-93. Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir og aðgangur er ókeypis. Fræðandi umræður, bækurnar á góðum kjörum og bókabarinn opinn.
Um bækurnar:
Í Návígi segir frá venjulegu fólki í óvenjulegum og stundum ótrúlegum aðstæðum. Bændum í Kína og Bangladess sem berjast við náttúruöflin, heiðarlegu fólki sem tekst á við afleiðingar styrjalda, bláfátækum viðskiptafrömuðum í Afríku, kaupmönnum á iðandi strætum stórborga á Indlandsskaga, dugmiklum konum og vingjarnlegum lögregluforingjum í gömlu Sovétríkjunum og fólki sem elst upp við múra hvort sem þeir eru manngerðir eða huglægir. Bókin segir líka frá fólki sem hefur óverjandi ógnarverk á samviskunni. Fólkið sem Þórir kynnist hefur ótrúlegan styrk þrátt fyrir hrikalegar aðstæður. Hann hittir fólk sem mætir örlögum sínum af jafnaðargeði, berst gegn ofurvaldinu og er staðráðið í að fara með sigur af hólmi.
Heimurinn eins og hann er eftir Stefán Jón er frásögn sem átti aldrei að koma fyrir augu almennings. Sögumaður byrjaði að skrá hjá sér minnispunkta þegar fornvinur hans greindist með banvænan sjúkdóm. Þegar sagan hefst er hann í þann mund að taka við nýju starfi í Róm og sér hina stóru veraldarmynd úr rústum heimsveldis sem er löngu hrunið. Hann veltir fyrir sér hvort heimurinn eins og við þekkjum hann stefni í sömu átt. Þá kemur í ljós að sagan verður að birtast.