Leiðsögn, ljóð og tónlist í Hólavallagarði
Salka stendur fyrir göngu í Hólavallagarði næstkomandi laugardag, 19. október, kl. 14. Heimir Björn Janusarson, forstöðumaður Hólavallagarðs, leiðir gönguna. Guðrún Rannveig Stefánsdóttir, höfundur Vökukonunnar í Hólavallagarði, les úr bók sinni og tónlistarmaðurinn Snorri Helgason leikur ljúfa tóna.
Vökukonan í Hólavallagarði er eftir Guðrúnu Rannveigu Stefánsdóttur og Sólveigu Ólafsdóttur og kom út í sumar hjá Sölku.
Samkvæmt þjóðtrú er vökumaður sá sem fyrstur er grafinn í nýjum kirkjugarði. Hann tekur á móti fólki við endalok lífsins og vakir yfir sálum þess. Guðrún Oddsdóttir var fyrst allra grafin í Hólavallagarði árið 1838 og er því vökukona garðsins. Í Vökukonunni í Hólavallagarði birtist ljóðabálkur um Guðrúnu Oddsdóttur og fleiri konur í garðinum eftir Guðrúnu Rannveigu auk formála um Hólavallagarð og eftirmála um lífshlaup Guðrúnar en Sólveig Ólafsdóttir ritar bæði formála og eftirmála.