
Lóa Hlín, Elías Rúni og Mars Proppé fá Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar!
Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 2025 voru veitt í Höfða síðasta vetrardag. Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri Reykjavíkur afhenti verðlaunin sem veitt eru í þremur flokkum.
Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir hlaut verðlaunin í flokki frumsaminna verka fyrir Mamma sandkaka sem Salka gefur út, Rán Flygenring í flokki myndlýsinga fyrir Tjörnina sem Angústúra gefur út og Elías Rúni og Mars Proppé í flokki þýðinga fyrir Kynsegin sem Salka gefur út.
Innilega til hamingju hæfileikaríka fólk!
Í umsögn dómnefndar um Mömmu sandköku segir:
„Lóa Hjálmtýsdóttir er enginn nýgræðingur í því að sprengja fólk á öllum aldri úr hlátri og Mamma sandkaka er þar engin undantekning. Bókin er sjálfstætt framhald af Mamma kaka, sem er afskaplega fyndin bók, en hér gengur Lóa jafnvel lengra í húmornum. Hér ríkir eintóm gleði og foreldrar fá talsvert fyrir sinn snúð á sama tíma og börnin.“
Í umsögn dómnefndar um Kynsegin segir:
„Elías Rúni og Mars Proppé þýddu skáldsöguna Kynsegin, sjálfsævisögu þar sem Maia Kobabe segir frá því hvernig hín fann sjálft sig eftir margra ára sjálfsefa og óvissu. Þessi teiknimyndasaga er listilega gert verk um mikilvægt málefni og hefur án efa verið áskorun fyrir þýðendurna tvo sem leystu ýmisskonar vandamál af lagni og virðingu fyrir efninu.“