Ný verslun Sölku á Suðurlandsbraut 6!
Salka hefur opnað pop-up verslun að Suðurlandsbraut 6 í næsta húsi við skrifstofur bókaútgáfunnar. Búðin verður opin fram að jólum, alla virka daga frá 12-17 og frá 13-16 á laugardögum.
Í nýju Sölkubúðinni er vítt til veggja, hátt til lofts og rúmt á milli borða þannig að auðvelt er að halda góðri fjarlægð og allra sóttvarna er gætt í hvívetna. „Hingað getur fólk komið og sótt bækurnar sem pantaðar eru í vefverslun okkar eða keypt þær beint á staðnum. Aðgengi er gott og við erum sveigjanlegar og afgreiðum fólk úti í bíl ef þess er óskað!“ segja Anna Lea og Dögg, eigendur Sölku, sem standa vaktina í aðdraganda jólanna.
Í búðinni má finna fjölbreytt úrval bóka sem Salka hefur gefið út á þeim 20 árum sem útgáfan hefur verið starfrækt. „Við leggjum mikið upp úr að hafa notalegt andrúmsloft í búðinni enda eiga bókabúðir að vera skemmtilegur staður að heimsækja. Höfundar okkar afgreiða og árita og það er alltaf heitt á könnunni,” bæta þær við og taka fram að fyrstu hundrað viðskiptavinir búðarinnar fá fallega bókagjöf. Verið hjartanlega velkomin!