Skemmtilegar bækur fyrir skemmtilegt fólk
Bókakvöld með Halldóri Armand
Verið hjartanlega velkomin á bókakvöld í bókabúð Sölku við Hverfisgötu miðvikudagskvöldið 13. nóvmeber kl. 20. Fjölmiðlamaðurinn góðkunni Freyr Eyjólfsson stýrir spjalli við Halldór Armand sem á dögunum gaf út bókina Mikilvægt rusl. Bókabarinn verður að sjálfsögðu opinn og öll velkomin! Húsið opnar kl. 19.45.
 
Um bókina: 

Daginn sem forsætisráðherra Íslands biður Guð að blessa þjóðina finnur öskukallinn Gómur Barðdal afskorið mannsnef í ruslatunnu við glæsihýsi í Þingholtunum. Skömmu síðar er frændi hans, seinheppna skáldið Geir Norðann, ráðinn sem ljóðakennari inn á þetta sama heimili. Hver á þetta nef? Hvernig endaði það í ruslatunnu?

Meðan íslenskt þjóðfélag gengur af göflunum ráðast þeir frændur í að leysa ráðgátuna um nefið ásamt lúgustelpunni Zipo, Kötu bílasala, Diddu öskukellingu, fyrrverandi fangaverði ársins, og fleiri ógleymanlegum persónum.

Leitin að eigandanum leiðir söguhetjurnar inn í meiriháttar samsæri sem teygir anga sína upp í efstu lög íslensks samfélags.

Mikilvægt rusl er bráðfyndin og grípandi ástar- og spennusaga sem leiftrar af frásagnargleði.

„Þessi bók er allt sem mig langar að vera í lífinu - leikandi létt og fyndin á yfirborðinu, djúpvitur, heimspekileg og gagnrýnin undir niðri. Beint í mark!“

Dóri DNA
10. nóvember 2024 eftir Anna Lea Friðriksdóttir